Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 617 . mál.


1087. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992.

Frá félagsmálanefnd.



1. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglan rannsakar eldsvoða samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og kveður til sérfróða menn eftir því sem hún telur þörf á. Hún tilkynnir Brunamálastofnun ríkisins og Rafmagnseftirliti ríkisins um eldsvoðann og rannsókn sína.
    Að lokinni rannsókn sendir lögreglan afrit af rannsóknargögnum til Brunamálastofnunar, hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra og vátryggingafélags nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum.

2. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, sem orðast svo:
    Þegar um mikið brunatjón er að ræða skal Brunamálastofnun ríkisins, óháð lögreglurannsókn, rannsaka útbreiðslu eldsins, hvernig brunavarnir byggingarinnar hafi staðist hann og hvernig að slökkviliðsstarfi hafi verið staðið. Kanna ber síðustu úttektir eldvarnaeftirlits fyrir brunann, hvaða athugasemdir hafi þar verið fram settar og hvernig eftir þeim hafi verið farið.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum um skipulag brunarannsókna í lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992. Er félagsmálanefnd hafði fyrr á þessu þingi til meðferðar frumvarp til breytingar á fyrrgreindum lögum bárust henni ábendingar frá félagsmálaráðuneytinu um að brýnt væri að breyta lögunum til lausnar á þeim aðstæðum sem nú ríkja varðandi skipulag brunarannsókna í landinu.
    Í núgildandi 22. gr. laga nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, er fjallað um fyrirkomulag brunarannsókna. Er þar kveðið á um að Brunamálastofnun ríkisins skuli sjá um að rannsókn fari fram á orsökum eldsvoða þegar eftir brunatjón, en Rannsóknarlögregla ríkisins eða lögreglustjóri skuli sjá um að lögreglurannsókn fari fram leiki grunur á að um refsivert athæfi hafi verið að ræða. Við lögreglurannsóknir skuli enn fremur haft samráð við Brunamálastofnun ríkisins. Nýlega hafa gengið tveir dómar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 10. febrúar 1994 í máli nr. 360/1993 og dóm Héraðsdóms Vesturlands frá 24. febrúar 1994 í máli nr. 93/1993, þar sem í forsendum er fundið að því að við brunarannsókn hafi ekki verið farið eftir ákvæðum 22. gr.
    Nefndin skoðaði mál þetta ítarlega og fékk á fund sinn fulltrúa frá félagsmálaráðuneytinu, Landssambandi slökkviliðsmanna, Brunamálastofnun ríkisins og Rannsóknarlögreglu ríkisins. Eftir þá umfjöllun varð niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt væri að koma á eðlilegri skipan á verklagi við rannsókn bruna, jafnt í lögum sem framkvæmd. Er mat nefndarinnar að með breytingu á 22. gr. laganna verði þeim tilgangi náð. Lagt er til að lögregla sjái almennt um rannsóknir á eldsvoðum, í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, en kveðji til þess sérfræðinga eftir því sem þörf þykir á. Þá er lagt til að með nýrri grein, 22. gr. a, verði komið á þeirri skyldu Brunamálastofnunar að framkvæma sjálfstæðar athuganir á ýmsum þáttum varðandi stærri eldsvoða, óháð lögreglurannsókn.